Fjölmargir hafa áhuga á leiklist og ganga með þann draum í maganum að reyna fyrir sér á sviði eða í kvikmyndum, hvort sem þeir hafa hug á að gera listina að ævistarfi eður ei. Ólöf Sverrisdóttir, leikkona og leiklistarkennari, efnir til leiklistarnámskeiðs fyrir 16 ára og eldri og hefst það næstkomandi fimmtudagskvöld.
Markmiðið með námskeiðinu er að sögn Ólafar fyrst og fremst að losa um hömlur og hafa gaman. „Til að byrja með verður farið í æfingar í einbeitingu, eflingu sjálfstrausts og traustsæfingar og síðan verður farið inn á framsögn, framkomu, spuna og fleira í þeim dúr,“ segir hún. „Ætlunin er að fara stuttlega inn á allar hliðar leiklistar og svo verð ég hugsanlega með framhaldsnámskeið fyrir þá sem vilja dýpka kunnáttu sína.“