Leikarinn Owen Wilson mun mæta aftur til vinnu í næsta mánuði en hann hefur ekki leikið frá því hann reyndi að taka eigið líf í ágúst á síðasta ári.
Mun hann mæta í tökur á kvikmyndinni Marley and Me í Miami á Flórída þann 10. mars nk en um rómantíska gamanmynd er að ræða.
Í lok ágúst í fyrra var Wilson fluttur á sjúkrahús í Santa Monica eftir sjálfsvígstilraun. Í kjölfarið hætti hann þátttöku í kvikmyndinni Tropic Thunder.
Jennifer Aniston leikur á móti Wilson í kvikmyndinni Marley and Me sem byggir á minningum dálkahöfundarins John Grogan, sem flytur til Flórída með eiginkonu sinni. Þar ættleiða þau hvolp sem nefnist Marley. Áætlað er að frumsýna myndina í desember.