Draumalandið í bíó

Andri Snær hefur haldið fjölda fyrirlestra í kjölfarið á útgáfu …
Andri Snær hefur haldið fjölda fyrirlestra í kjölfarið á útgáfu Draumalandsins – sjálfshjálparbókar handa hræddri þjóð.

„Verkið er í gangi. Þetta tekur hins vegar lengri tíma en við höfðum áætlað, en það vill nú bara verða með verk eins og þetta. En þetta gengur ágætlega,“ segir Sigurður Gísli Pálmason, einn af framleiðendum Draumalandsins, heimildarmyndar sem byggð er á samnefndri metsölubók Andra Snæs Magnasonar.

Leikstjóri myndarinnar er Þorfinnur Guðnason, en að sögn Sigurðar er myndin langt komin. „Við erum að klára að viða að okkur efni, og það er byrjað að klippa hana,“ segir hann, en vinna við myndina hefur staðið yfir í rúmt ár.

Fráleit hugmyndafræði

Eins og margir eflaust muna er bók Andra Snæs hörð ádeila á virkjanaframkvæmdir á hálendi landsins, og kom hún út þegar umræðan um Kárahnjúkavirkjun stóð sem hæst. En telur Sigurður að mynd sem þessi eigi erindi í dag, löngu eftir að Hálslón hefur verið fyllt?

„Við erum að taka fyrir miklu víðara sjónarhorn, myndin fjallar sáralítið um Kárahnjúka. Og svo ég taki nú aðeins upp hanskann fyrir Andra Snæ vil ég ekki alveg fallast á að bókin hafi eingöngu fjallað um Kárahnjúka,“ segir hann.

„Við erum að hugsa um hvað gerir það að verkum að við sem þjóð, ein af ríkustu þjóðum veraldar ár eftir ár, tökum svona ákvarðanir. Mér finnst þetta svolítið byggt á óttanum, með svipuðum hætti og Bandaríkjamenn sannfærðust um að nauðsynlegt væri að fara í stríð út af því að það steðjaði að þeim einhver ógn, sem er náttúrlega fráleit hugmyndafræði. Með sama hætti má segja að hér sé fólk sannfært um það ár eftir ár að ef ekki verður virkjað og farið á fjóra fætur fyrir framan alþjóðlegar málmbræðslur muni bresta á mikið atvinnuleysi. Staðreyndin er hins vegar sú að hér hefur ekki verið atvinnuleysi lengi og núna hafa verið á bilinu 17 til 18 þúsund erlendir verkamenn hér á landi til þess að moka kolunum hraðar inn í efnahagsvélina.“

Spegilmynd

Af orðum Sigurðar að dæma má gera ráð fyrir að myndin muni taka fremur afdráttarlausa afstöðu gegn stóriðjustefnunni, með svipuðum hætti og gert var í bók Andra Snæs. Aðspurður segir hann það þó ekki aðalatriðið varðandi myndina. „Ég lagði meira upp með að bregða upp spegli fyrir okkur til að horfa í. Það er ekki verið að gera umhverfisverndarsinnum hærra undir höfði heldur en hinum sem hafa mikinn áhuga á þessu málefni og trúa því í hjarta sínu að þetta sé nauðsynlegt og gott – að fórna landi og byggja málmbræðslur. Helmingur þjóðarinnar trúir því og heldur að það sé mjög gott. Ég vil alls ekki gera lítið úr því viðhorfi því öll viðhorf eiga rétt á sér. Þannig að myndin mun ekki taka einhverja harkalega afstöðu, heldur bregða upp þessum spegli.“

Myndin verður byggð upp á viðtölum og safnaefni, innlendu sem erlendu. Að sögn Sigurðar verður einnig eitthvað af leiknu efni í myndinni, þótt það verði í minnihluta.

Sigurður gerir ráð fyrir að myndin verði frumsýnd síðar á þessu ári, jafnvel strax í sumar, en hún verður sýnd í kvikmyndahúsum hér á landi. „Vonandi munu útlendingar líka hafa áhuga á að sjá þessa mynd því ég held að Ísland sé að mörgu leyti heimurinn í hnotskurn,“ segir Sigurður. „Það væri líka mjög undarlegt ef Ríkissjónvarpið hefði ekki áhuga á að kaupa þessa mynd því hún er nú byggð á einhverri mest seldu bók Íslandssögunnar.“

Það er fyrirtæki Sigurðar, Ground Control Productions / Jarðstöðin, sem framleiðir myndina ásamt Hrönn Kristinsdóttur og fyrirtæki hennar, Tröllakirkju. Myndin fékk 12 milljónir úr Kvikmyndasjóði, en Sigurður telur að heildarkostnaður við myndina muni nema í kringum 60 milljónum króna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir