Eins og greint var frá í síðustu viku var búist við því að breska leikkonan Keira Knightley myndi verja Valentínusardeginum hér á landi, en kærasti hennar Rupert Friend átti að hafa komið henni á óvart með því að bjóða henni hingað til lands. Þetta kom meðal annars fram á slúðurfréttaveitunni Bang Showbiz.
Skemmst er frá því að segja að ekkert hefur sést til leikkonunnar og líklegt verður að teljast að hún hafi hætt við Íslandsförina eða þá að aldrei hafi staðið til að hún kæmi hingað til lands.
Þessar fréttir minna um margt á fréttir frá því í mars árið 2003, en þá gengu þær sögur fjöllunum hærra að breski leikarinn Jude Law hefði komið hingað til lands. Aðdáendur kappans fjölmenntu á helstu skemmtistaði Reykjavíkur í von um að berja leikarann augum en gripu í tómt.
Aðdáendur Keiru Knightley geta þó huggað sig við það að þeir geta enn séð leikkonuna á hvíta tjaldinu, en hún fer með aðalhlutverkið í hinni margrómuðu Atonement sem sýnd er í kvikmyndahúsum landsins um þessar mundir.