Tónlistarmaðurinn Rufus Wainwright hefur hrint af stað herferð þar sem hann biður aðdáendur sína jafnt sem aðra um að slökkva öll ljós í tólf klukkustundir frá hádegi til miðnættis þann 21 júní nk.
Wainwright, sem er á langri hljómleikaferð um þessar mundir, hyggst halda órafmagnaða tónleika í New York þann 19. mars nk. þar sem hann hyggst safna fé til verkefnisins. Rufus Wainwright heldur tónleika í Háskólabíói 13. apríl næstkomandi.
Framtakið hefur fengið titilinn Blackout Sabbath, myrkvaður hvíldardagur, en vísar auðvitað í nafn þungarokkshljómsveitarinnar Black Sabbath, sem Ozzy Osbourne stýrði á sínum tíma.
Söngvarinn fékk innblástur frá rafmagnsleysinu í New York árið 2003, þegar rafmagn fór af tugum borga á austurströnd Bandaríkjanna, en Rufus lýsir því sem mögnuðu kvöldi.
Vill Wainwright að fólk láti rafmagnið eiga sig þennan dag þann 19. júní en hugsi þess í stað um það hvað það geti gert fyrir umhverfið.
Á bloggi tónlistarmannsins kemur fram að móðir hans hafi auk þess bent á að dagurinn sé auk þess tilvalinn til að afþíða ísskápinn.