„Starfsfólkið er spennt. Þetta horfir ágætlega við okkur. Það er um að gera að nýta aðstöðuna fyrst það er hægt,“ segir Guðjón Hannesson, starfsmaður Hótels Bjarkalundar.
Eins og fram kom í 24 stundum á þriðjudag þá verða þremenningarnir í Dagvaktinni, framhaldsþáttaröð Næturvaktarinnar, starfsmenn Hótels Bjarkalundar. Bjarkalundur er staðsettur við Berufjörð á Vesturlandi, stutt frá Reykhólum. Upptökur á Dagvaktinni hefjast í næsta mánuði, en þættirnir verða sýndir á Stöð 2 næsta haust.
Morðingjar og hræætur
Ætla mætti að staðsetning hótelsins sé fullkomin fyrir náttúrubarn eins og Georg Bjarnfreðarson, sem Jón Gnarr túlkaði eftirminnilega í Næturvaktinni. Jón segir að þótt staðsetningin sé að mörgu leyti góð, þá sé Georg ekki fullkomlega sáttur. „Georg er ofboðslegur dýravinur, eins og mörg stórmenni. Hitler var til dæmis mikil dýravinur,“ segir Jón. „Georg lítur þannig á að það að drepa dýr jafngildi morði. Þannig að bændur eru allir morðingjar í hans augum. Þeir ala jafnvel dýr í þeim tilgangi að myrða þau og innbyrða hold þeirra, sem gerir fólk að hræætum. Þetta gerir honum erfitt fyrir að vera úti á landi.“
Spennandi verður að fylgjast með skapbræði Georgs í Dagvaktinni og mun hann væntanlega láta íslenska bóndann fá það óþvegið. „Íslenskir bændur eru morðingjar og hræætur í hans augum,“ segir Jón. „Það er ekki mikið lífrænt þarna, það er kannski það sem er erfitt fyrir Georg. Bjarkalundur er ekki eins og Lillhagen.“
Georg og landbúnaðurinn
Jón tjáir sig ekki um efnistök þáttanna og er ekki tilbúinn að upplýsa hvort íslenski bóndinn verði Georg sérstaklega hugfanginn. „Það á eftir að koma skemmtilega í ljós,“ segir Jón og hlær. „Þegar Georg fer að tjá skoðanir sínar á íslenskum landbúnaði!“