Á tónleikum Bubba Morthens gegn rasisma í fyrrakvöld komu formenn ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna skoðunum þeirra á framfæri. Þeirra á meðal var Viðar Guðjohnsen, formaður Félags ungra frjálsyndra. Formaður Félags Anti-rasista, Dane Magnússon segist hissa á þeirri ákvörðun.
„Mér finnst skjóta skökku við að flokkur, sem hefur legið undir ámæli í innflytjendamálum, sé með í baráttunni gegn rasisma. Mér finnst þeir hafa sagt nóg undanfarið.“
Að sögn Bubba Morthens fannst honum hugmyndin góð, að fá formenn ungliðahreyfingana til að skýra stefnu sína. „Batnandi mönnum er best að lifa segi ég. Hversu oft höfum við séð fólk dásama áfengisdrykkju eina vikuna og fara í meðferð þá næstu? Auk þess spyr ég bara, hver tekur mark á Frjálslynda flokknum?“
„Á tónleikunum tíundaði ég stefnu okkar í Félagi ungra frjálslyndra að takmarka flæði innflytjenda í samræmi við vilja og getu þjóðarinnar til að taka á móti þeim,“ segir Viðar Guðjohnsen, formaður félagsins. Aðspurður hvort þær skoðanir hafi hlotið hljómgrunn á tónleikum gegn rasima sagði Viðar: „Nei, engan sérstakan kannski.“
Á vefsíðu Viðars segir: „Höfundur er Frjálslyndur þjóðarsinni sem aðhyllist hertari innflytjendalöggjöf og hófsama aðskilnaðarstefnu.“ „Ég er að tala um skoðun mína varðandi aðskilnað við Evrópusambandið. Ég skil að þetta geti valdið misskilningi, en hélt reyndar að ég væri búinn að taka þetta út.“