Madonna og Demi Moore eru meðal fjölmargra úr heimi fræga fólksins sem hafa verið varaðir við lifrarbólgu A smiti eftir að í ljós kom að barþjónn sem var á vakt í þrítugsafmæli Ashton Kutcher á bar í New York er smitaður af lifrarbólgu A.
Læknar hafa beðið gestina í afmælinu um að láta rannsaka hvort þeir hafi smitast en lifrarbólga A getur smitast í gegnum mat og drykki þar sem hreinlæti er ábótavant. Alls er talið að 800 manns hafi komið á staðinn daginn sem afmælið var haldið og daginn eftir.
Lifrarbólga A er bráður veirusjúkdómur og líða 2–6 vikur frá smitun þar til einkenna verður vart. Sjúkdómseinkennin eru í upphafi lík flensueinkennum, með hita, verkjum og óþægindum í ofanverðum kvið hægra megin. Nokkrum dögum síðar fer að bera á gulu, þvag verður dökkt og hægðir ljósar. Veikindi geta staðið yfir vikum og mánuðum saman en á endanum ná sér flestir af þessum sjúkdómi.
Meðal gesta í afmælinu þann 7. febrúar sl. eru Bruce Willis, Gwyneth Paltrow, Kate Hudson, Liv Tyler og Salma Hayek.
Heilbrigðisyfirvöld í New York hafa varað eigendur staðarins, Café Socalista, við eftir skoðun á staðnum. Engin sápa reyndist vera á salernum staðarins né í aðstöðu starfsfólks.