„Ég veit ekki hvort þetta er eitthvað sem ég á að taka alvarlega,“ segir rapparinn Sævar Daníel Kolandavelu, betur þekktur sem Poetrix.
Poetrix kom fram á tónleikum Bubba Morthens í Austurbæ á miðvikudag. Tónleikarnir voru undir yfirskriftinni „Bræður og systur“ og voru haldnir gegn kynþáttafordómum. „Það hoppaði einhver gaur upp á svið á meðan ég var að spila og skildi eftir byssukúlu á flyglinum,“ segir Poetrix. „Svo fór hann. Ég tók ekki eftir þessu enda önnum kafinn. Fólk tók eftir þessu og ég sá byssukúluna sjálfa seinna.“
„Þetta kemur illa út fyrir þann sem gerði þetta, vegna þess að ég veit ekki betur en að ég hafi verið eini litaði flytjandinn þetta kvöld og þetta voru anti-rasistatónleikar þannig að hann verður stimplaður sem kynþáttahatari af verstu gerð,“ segir Sævar og hlær. „En mér finnst líklegra að þetta hafi verið einhver sem var búinn að taka aðeins og mikið af bætiefnum. Kannski ekki alveg með hugann við efnið.“
Kynþáttahatur er vaxandi vandamál á Íslandi. Poetrix segist ekki hafa fundið fyrir því í sinn garð, en telur að aðrir hópar liggi undir ámæli almennings. „Umræðan um Pólverja og Litháa hefur kannski litast af einhverri vanþekkingu,“ segir hann.