George Clooney hefur bæst í hóp þeirra Hollywood-stjarna sem reyna að bera blak af leikaranum Tom Cruise sem hingað til hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að breiða út trú Vísindakirkjunnar.
„Ég ræddi við Tom um daginn og hann er í fínu lagi. Hann gerir sjálfum sér lítinn greiða með því að tala opinskátt um trú sína en hann þarf líka að snúa gríninu og gagnrýninni upp í uppbyggilegt grín.“
Þar virðist Clooney vera á heimavelli eins og margoft hefur sannast og fátt ef nokkuð af því sem er skrifað um hann í slúðurblöðunum getur komið honum úr jafnvægi.
„Ég ræði aldrei um mitt einkalíf. Margir segjast ekki vilja ræða sitt einkalíf í fjölmiðlum en gera það svo engu að síður. Þegar slúðurblöðunum tekst svo ætlunarverk sitt, að reita þig til reiði vegna einhvers sem þú veist að er ekki satt, þá þarftu – í það minnsta á opinberum vettvangi – að geta hlegið að því. Það er eina leiðin til að takast á við hluti sem þessa.“