Umboðsmaður hljómsveitarinnar Coldplay, Dave Holmes, segir væntanlega plötu sveitarinnar vera þá bestu til þessa og hreint stórkostlega. Slík ummæli frá umboðsmanni ættu svo sem ekki að koma neinum á óvart þar sem það er honum í hag að sveitin geri sífellt betri plötur.
Það sem er óvenjulegra eru ummæli söngvarans Chris Martin um aðkomu dávalds. „Stundum þarf maður á dávaldi að halda til að öðlast þann kjark sem þarf til,“ sagði Martin um vinnuna við nýju plötuna á dögunum. Platan er sú fjórða frá sveitinni og hefur enn ekki verið nefnd. Martin nefnir einnig hljómsveitirnar Rammstein og Tinariwen sem áhrifavalda. Þeir sem þekkja til tónlistar Coldplay vita þó að hún á lítið sameiginlegt með Rammstein.