Írum hefur ekki gengið sem best í undanförnum Eurovision-keppnum eftir nánast óslitna sigurgöngu á síðasta áratug 20. aldar. Þeir hafa nú gripið til sinna ráða og senda kalkúninn Dustin til Belgrad í maí en Dustin vann yfirburðasigur í írsku lokakeppninni í gærkvöldi.
Lagið, sem Dustin flytur í Belgrad heitir Irelande Douze Pointe en þar er gert grín að atkvæðagreiðslunni í Eurovision keppninni og landfræðilegum atkvæðahalla.
Hristu fjaðrirnar og brýndu gogginn
hristu þær til vesturs og austurs
söng Dustin í tónlistarhúsinu í Limerick í gærkvöldi.
Veifaðu evru-höndum og evru-fótum
veifaðu þeim í kalkúnataktinum
Dustin mun taka þátt í fyrri undankeppninni í Belgrad 20. maí en íslenska Eurobandið mun taka þátt í þeirri síðari, 22. maí. Lokakeppnin fer fram 24. maí.
Kalkúnninn Dustin er þekkt sjónvarpspersóna á Írlandi og kom fyrst fram árið 1990 ásamt leikbrúðunum Zig og Zag í skemmtiþætti írska sjónvarpsins. Vinsældir hans uxu hratt og hann fékk fljótlega eigin sjónvarpsþátt: Fréttir Dustins. Hann hefur mikinn áhuga á stjórnmálum og nafn hans hefur jafnvel birst á kjörseðlum kjósenda, sem vilja mótmæla stjórnmálamönnum með táknrænum hætti.
Dustin er einnig vinsæll tónlistarkalkúnn og hefur gefið út 14 smáskífur og 6 breiðskífur á ferlinum. Á þeirri síðustu, sem kom út árið 2005, söng hann m.a. tvísöng með Chris De Burgh.