Uppselt var á tónleika Hins íslenzka Þursaflokks sem fram fóru í Laugardalshöllinni í kvöld en þrjátíu ár eru liðin frá stofnun sveitarinnar. Auk Þursaflokksins spilaði Caput hópurinn á tónleikunum undir stjórn Guðna Franzsonar. Jafnframt söng Ragnheiður Gröndal eitt lag með Þursaflokknum, Gegnum holt og hæðir.
Áheyrendur voru vel með á nótunum og tóku undir með Agli Ólafssyni og félögum í Þursaflokknum í mörgum lögum. Enda sagði Egill á tónleikunum að það væri ánægjulegt að sjá allflesta þá sem fylgdu sveitinni í gegnum tíðina og að ekki væri nóg með að þeir mættu á tónleikana heldur hefðu þeir tekið börn og barnabörn með.
Ekki var annað að heyra á hljómleikagestum að þeir hafi verið ánægðir með sína menn í kvöld og ljóst að Hinn íslenzki Þursaflokkur hefur engu gleymt á þeim fjölmörgu árum sem liðin eru frá því að hljómsveitin hætti en síðustu hljómleikar Þursaflokksins voru haldnir árið 1984.
Þursaflokkinn skipa: Ásgeir Óskarsson, trommur og slagverk, Egill Ólafsson, söngur og hljómborð, Eyþór Gunnarsson (sem kom í stað Karls Sighvatssonar heitins) á Hammond orgelið og hljómborð. Rúnar M. Vilbergsson, fagott, Tómas M. Tómasson, bassi og hljómborð og Þórður Árnason, gítar.