Ekki drekkt í brúnkukremi

Eurobandið fagnar sigri.
Eurobandið fagnar sigri. mynd/Jón Svavarsson

Lagið „Fullkomið líf“, „This is my Life“ í enskri útgáfu, eftir Örlyg Smára, í flutningi Friðriks Ómars Hjörleifssonar og Regínu Óskar Óskarsdóttur, Eurobandsins, verður framlag Íslendinga í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í ár.

Örlygur Smári var að vonum ánægður þegar blaðamaður ræddi við hann í gær og sagðist ekki hafa átt von á því að sigra Merzedes Club. „Ég átti ekki von á því að nokkur gæti gert það, þau voru alveg svakalega dugleg í að koma sér á framfæri,“ sagði Örlygur. Sveit Barða hefði vakið mikinn áhuga fyrir keppninni og því sérstaklega gaman að sigra, vitandi að öll þjóðin væri límd við skjáinn.

– Heldurðu að öll athyglin sem Merzedes Club fékk hafi unnið gegn sveitinni?

„Kannski hefur það bara unnið gegn þeim á endanum, ég veit það ekki,“ svarar Örlygur. Hann hafi hitt liðsmenn Merzedes Club í Evróvisjónpartíi á Nasa eftir keppnina og spjallað við þá, allir hafi verið hressir. „Þeir drekktu mér ekkert í brúnkukremi,“ segir Örlygur og hlær.

Örlygur ætlar að fikta aðeins meira í laginu en fyrst ætlar hann að hvíla sig á því. „Það var nú hugmyndin að sýna fólki hvernig þetta yrði með því að hafa þetta á ensku.“

Örlygur hefur marga fjöruna sopið í Evróvisjón og popptónlist, hann samdi m.a. lagið „Tell Me!“ sem var framlag Íslendinga til keppninnar árið 2000. „Ég hef verið að brasa í músík mjög lengi og fór út í þetta nám til Svíþjóðar, fyrir sex árum, og fór í kjölfarið að semja með mjög góðu fólki í svona lagahöfunda-kollektífi í Svíþjóð á vegum Sony. Ég var að semja með því fólki fyrir hina og þessa,“ segir Örlygur.

Friðrik Ómar sagðist í gær vera rosalega ánægður með sigurinn, þó hann hefði ekki getað fagnað eins og hann vildi. Hann hélt þess í stað beint á Broadway að syngja í sýningu sem tileinkuð væri George Michael. Friðrik Ómar sagði þegar sigur lá fyrir í Laugardagslögunum að hann væri þakklátur þjóðinni og sagði einnig að það „gylli hæst í tómri tunnu“. Friðrik Ómar sagðist í gær ekki vilja fara nánar út í af hverju hann lét þau ummæli falla, hann hefði sagt þetta í hita leiksins.

Ævintýrið rétt að hefjast

Egill Einarsson, betur þekktur undir nafninu Gillzenegger, eða Gillz, segir ekki annað hægt en að taka ósigrinum af karlmennsku. „Við förum ekki að væla yfir þessu,“ sagði Gillz við blaðamann í gær. Gillz er í hljómsveitinni Merzedes Club sem lenti í öðru sæti keppninnar í fyrrakvöld, en margir höfðu spáð henni sigri. Hann segir ævintýrið þó ekki á enda, sveitin hafi eignast gríðarlega marga aðdáendur á stuttum tíma.

„Við eigum bara grunnskólana og menntaskólana á Íslandi eins og þeir leggja sig og allan aldur reyndar, fólk hefur tekið mjög vel í þetta,“ segir Gillz. Þakið hafi t.a.m. ætlað að rifna af húsinu í Evróvisjónpartíinu á Nasa eftir keppnina þegar sveitin steig á svið. „Ég byrjaði á hlýrabol en var svo rifinn úr honum,“ segir Gillz, en hann var íklæddur hlýrabol með smellum á úrslitakvöldinu, til þess gerðum að rífa menn auðveldlega úr honum. Bolurinn var sérsaumaður fyrir keppnina. Þar með var slegið á allar sögusagnir þess efnis að Gillz væri að fela eitthvað undir bolnum.

Heyrðu ekkert í sér

Hvað frammistöðu sveitarinnar í fyrrakvöld varðar segir Gillz að betra hefði verið ef starfsmenn Sjónvarpsins hefðu „kveikt á monitorunum fyrstu mínútuna“. Rebekka hafi sungið mjög vel á æfingum en verið dálítið fölsk á sviði enda hafi þau ekkert heyrt í sér fyrstu mínútuna.

Merzedes Club hefur undirritað samning við Cod Music um útgáfu plötu og stefnt að því að hún komi í verslanir í maí. Sveitina skipa, auk Gillz, þau Partý-Hanz, Gaz-man, Rebekka og Ceres 4. Gillz segir ekki annað hægt en að halda hljómsveitinni gangandi, hún sé orðin svo rosalega vinsæl. Barði Jóhannsson semur lög sveitarinnar enda maðurinn á bak við „Ho, ho, ho we say hey, hey, hey“. Barði muni að öllum líkindum halda áfram að dæla út slögurum enda tónlistarsnillingur. 

Merzedes Club.
Merzedes Club. mynd/Eggert
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hugsanlegt er að þú verðir með hugmynd tengda tekjum og fjármálum á heilanum í dag. Gæfan er þér hliðholl í augnablikinu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Unnur Lilja Aradóttir
3
Torill Thorup
4
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hugsanlegt er að þú verðir með hugmynd tengda tekjum og fjármálum á heilanum í dag. Gæfan er þér hliðholl í augnablikinu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Unnur Lilja Aradóttir
3
Torill Thorup
4
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir