Þegar hafa skapast miklar umræður um nýkjörið framlag Íslendinga til Eurovison í ár á vefnum Esctoday.com. Vefurinn er sá mest lesni af þeim sem fjalla um keppnina sem allir hata að elska og að vanda eru skiptar skoðanir um lagið sem við sendum til leiks.
Notendur vefjarins geta sagt skoðun sína á lögunum sem taka þátt í keppninni í Serbíu í maí og eru fleiri jákvæðir en neikvæðir í garð þeirra Friðriks Ómars og Regínu. Sumir ganga svo langt að segja að This is My Life eigi mjög góða möguleika á sigri, en öðrum finnst það fremur litlaust og þreytt.
Hörðustu Eurovision-aðdáendur hafa þó sjaldnast rétt fyrir sér þegar á hólminn er komið, þannig að lítil ástæða er til þess að missa svefn yfir skoðunum álfusystkina okkar.