Poppstjarnan Michael Jackson gæti misst Neverland búgarðinn ef hann ekki greiðir þriggja mánaða greiðslu af húsinu sem komin er í vanskil, alls 25 milljónir dala, eða um 1,7 milljarð króna.
Yfirvöld í Santa Barbara í Kaliforníu ætla að bjóða húsið upp þann 19. mars ef söngvarinn ekki greiðir af húsinu fyrir þann tíma.
Fjallað hefur verið talsvert um fjárhagsvandræði Jacksons undanfarin ár og hann margoft sagður gjaldþrota, en enn hefur honum tekist að halda eignum sínum.
Söngvarinn hefur ekki búið á búgarðinum síðan árið 2005 er hann var sýknaður af ákærum um kynferðislega misnotkun á börnum.
Jackson keypti búgarðinn árið 1987 og bjó þar til ævintýraland fyrir börn, með leiktækjum sem yfireitt finnast aðeins í skemmtigörðum. Búgarðurinn er nefndur eftir eynni Hvergilandi sem kemur fyrir í skáldsögunni um Pétur Pan, þar sem börn verða aldrei fullorðin.