Auðkýfingurinn, frumkvöðullinn, ofurhuginn og ævintýramaðurinn Richard Branson er Bretum ofar í huga sem góð fyrirmynd fyrir börn en sjálfur Jesú. Þetta kemur fram í nýrri könnun.
Í könnuninni, sem sagt er frá á fréttavef Reuters, var fólk á ýmsum aldri spurt að því hverjir því þætti bestu fyrirmyndirnar fyrir ungmenni.
Í fyrsta sæti var fjölskyldan, en Branson náði svo öðru sætinu og þykir því betri fyrirmynd en Jesú, sem Bretum þykir þriðja besta fyrirmyndin.
Ungt fólk sér í lagi virðist hrifið af Branson en nærri helmingi fleiri á aldrinum 18 - 34 ára völdu Branson en þeir sem eru 55 ára og eldri. Alls nefndu 12%, rúmlega einn af hverjum tíu Branson.
Neðar á listanum eru svo kennarar og Nelson Mandela, Díana prinsessa og nakti heilsukokkurinn Jamie Oliver er sjöunda besta fyrirmyndin að mati Breta.
Á eftir Oliver nefndu Bretarnir Winston Churchill, Martin Luther King og Bill Gates. Það vekur hins vegar athygli að dægurhetjur og knattspyrnumenn á borð við David Beckham komast hvergi í efstu sætin yfir bestu fyrirmyndirnar.
Mark Hodson, talsmaður fyrirtækisins Opinium, sem gerði könnunina segir niðurstöðurnar benda til þess að þótt Bretar séu haldnir þráhyggju fyrir frægðarfólki og fótbolta, þá horfi þeir frekar til frumkvöðla á borð við Branson og Jamie Oliver þegar kemur að því hvaða leið á að feta í lífinu.