Cortes, hljómplata Garðars Thors Cortes, hefur verið tilnefnd til bresku tónlistarverðlaunanna fyrir klassíska tónlist í flokknum hljómplata ársins árið 2007. Verðlaunin verða afhent í Royal Albert Hall í maí.
Plata Garðars kom út í Bretlandi í apríl á síðasta ári og fór beint í fyrsta sæti klassíska listans og sat þar í þrjár vikur.
Tilnefningar í flokknum plata ársins eru þær fyrstu sem kynntar eru en tilnefningar í öðrum flokkum verða kynntar í byrjun mars. Þetta er eini flokkurinn þar sem almenningi gefst kostur á að kjósa um en kosningin mun fara fram á heimasíðu verðlaunanna og hefst kosningin 6. mars.
Sir Paul McCartney hlaut verðlaunin fyrir plötu ársins í fyrra fyrirEcce Cor Meum. Árin tvö á undan vann messósópransöngkonan Katherine Jenkins þennan flokk.