Hin limafagra Trish Stratus, sem er sjöfaldur World Wrestling Entertainment meistari í fjölbragðaglímu, er á leiðinni hingað til lands til að etja kappi við glímudrottningu Íslands og handhafa Freyjubeltisins, Svönu Hrönn Jóhannsdóttur.
Með Trish kemur kanadískt sjónvarpsteymi til að skrásetja viðburðinn, en Trish er á ferðalagi um heiminn til að læra og keppa í ýmsum afbrigðum glímunnar.
Góð landkynning
„Hingað hafa komið ein til tvær sjónvarpsstöðvar á ári til að kynna sér íslensku glímuna. Trish þessi er gríðarlega þekkt þarna vestra og þetta er því fínt framtak til að kynna glímuna á erlendri grundu,“ segir Lárus Kjartansson hjá Glímusambandi Íslands. Hann viðurkennir þó að íslenska glíman eigi ekki margt sameiginlegt með fjölbragðaglímuni sem Trish stundar. „Þetta gengur að mestu leyti út á skemmtanagildið þarna hjá þeim í Bandaríkjunum. En það verður ekki tekið af Trish að hún er í gríðarlega góðu formi. Ég held þó að Svana muni hafa hana, enda snýst íslenska glíman meira um tækni og jafnvægi heldur en krafta.“
Samkvæmt Svönu glímudrottningu mun hún ekki vanmeta andstæðing sinn. „Mér líst bara vel á þetta, gaman að fá nýja og framandi andstæðinga. Hún virðist frekar nett, en margur er knár þótt hann sé smár. Auðvitað stefni ég á sigur, því þjóðarstoltið er jú að veði, en annars er þetta bara frábært fyrir þessa íþrótt að fá þessa athygli,“ sagði Svana.
Íþróttakona eða fyrirsæta?
Trish er margtugginn fréttamatur í Bandaríkjunum og Kanada, þar sem hún hefur verið kosin Gella ársins þrisvar sinnum, (Babe of the year) og Díva áratugarins, (Diva of the Decade). Auk þess að „keppa“ í fjölbragðaglímu hefur hún margoft setið fyrir og unnið við sjónvarp, til dæmis raunveruleikaþáttinn Armed & famous, sem lagður var af eftir fjóra þætti. Einvígi þeirra Trish og Svönu fer fram miðvikudaginn 5. mars klukkan 20.00 í íþróttahúsi Ármanns.
Svana Hrönn Jóhannsdóttir stefnir á sigur í viðureigninni.
mbl.is/Sverrir