Írski söngvarinn Johnny Logan er væntanlegur til landsins ásamt 5 manna hljómsveit sinni og spilar á Broadway föstudagskvöldið 23. maí. „Við byrjuðum að vinna í því að fá hann hingað fyrir um ári,“ segir tónleikahaldarinn Daníel hjá umboðsskrifstofunni performer.is.
„Hann er umsetinn á þessum tíma árs því að hann er náttúrlega Eurovision-kóngurinn. Það var erfitt að ná honum hingað daginn fyrir úrslitakvöldið úti í Serbíu, en við náðum að sannfæra hann um að honum væri hvergi betur borgið en á Íslandi. Hann er hrifinn af landinu og sló því til.“
Í söngvakeppninni hefur Logan flutt lögin „What's Another Year“ árið 1980 og „Hold Me Now“ árið 1987 sem hann samdi og svo sigraði lagið „Why Me?“ eftir hann í flutningi Lindu Martin árið 1992. Þessi lög tekur hann öll á Broadway en einnig er hann með á prógramminu ýmis önnur lög. „Þetta verður bara ball,“ segir Daníel.
Miðasala hefst 12. mars á midi.is og í verslunum Skífunnar og BT.