Þingeyska hljómsveitin Ljótu hálfvitarnir brúaði kynslóðarbilið á einum degi þegar sveitin hélt tvenna tónleika í dag á Húsavík. Og þeir þriðju verða síðan í kvöld. Hálfvitarnir byrjuðu á dvalarheimilinu Hvammi eftir hádegið og að sögn Arngríms Arnarsonar, liðsmanns hálfvita, var frábært að hitta gamla fólkið og spila fyrir það.
„Við spiluðum nokkur lög á lægri nótunum og síðan drukkum við kaffi með gamla fólkinu. Það má segja að það hafi farið meiri tími í spjall við vistmenn heldur en spilamennsku því að við vorum spurðir út í eitt hverra manna við værum og þar eftir götunum” sagði Aggi og bætti við að þetta hafi verið mjög skemmtileg stund.
Síðdegis voru svo tónleikar fyrir unga og upprennandi hálfvita á Fosshótel Húsavík og var vel mætt en tónleikarnir voru í boði nokkurra fyrirtækja á Húsavík.
Í kvöld verða svo aðrir tónleikar á hótelinu og þá fyrir fullvaxta og borgandi hálfvita eins og Aggi komst að orði. Á þessum tónleikum í dag og kvöld frumflytja hálfvitarnir lög sem verða á næstu plötu þeirra sem og eldri lög sveitarinnar.