Söngkonan Whitney Houston mun að öllum líkindum fá greiddar þrjár milljónir dala (tæpar 200 milljónir kr.) fyrir að koma fram á fjáröflunartónleikum í London fyrir styrktarsjóð barna sem milljarðamæringurinn John Caudwell skipuleggur.
Að sögn ónefnds heimildarmanns er það Caudwell mjög mikilvægt að sjóðurinn fái umfjöllun í fjölmiðlum og vonast hann til að nafn Houston muni gera gæfumuninn í þeim efnum. Whitney Houston hefur lítið komið fram á undanförnum árum en á allra seinustu misserum hefur hún verið að koma lífi sínu á réttan kjöl eftir að hafa sokkið nokkuð djúpt í neyslu fíkniefna. Það vakti hins vegar mikla athygli þegar hún mætti til Fashion Rocks hátíðarinnar í Royal Albert Hall í október á síðasta ári og svo hélt hún tónleika á Live and Loud tónlistarhátíðinni í Kuala Lumpur í Malasíu í desember sama ár.
Barátta Houston við áfengi og eiturlyf komst fyrst í fréttirnar árið 2000 þegar hún og þáverandi eiginmaður hennar, tónlistarmaðurinn Bobby Brown, voru handtekin fyrir að hafa undir höndum maríjúana á flugvelli í Hawaii. Síðar það ár vakti það mikla athygli þegar hún afboðaði sig með 10 mínútna fyrirvara á tónleika til heiðurs plötuframleiðandanum Clive Davis þegar Davis var hleypt inn í frægðarhöll rokksins. Houston skildi við Bobby Brown í fyrra eftir 15 ára hjónaband.