Breska söngkonan Lily Allen hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu. Hún missti fóstur í janúar og hætti strax í kjölfarið með kærastanum, Ed Simmons úr hljómsveitinni Chemical Brothers. Áður fór það orð af henni að hún færi mikið út á lífið og sleppti þá alveg fram af sér beislinu. Hún greindi til dæmis frá því í viðtali að hún hefði aðeins verið fjórtán ára gömul þegar hún prófaði e-töflu í fyrsta sinn. Nú segist hún hins vegar hafa snúið við blaðinu.
„Ég hætti að drekka þegar ég varð ólétt og svo byrjaði ég ekkert aftur. Eftir að barnið var farið hugsaði ég með mér að ég vildi ekki lenda í sama farinu aftur,“ sagði hún í viðtali við breska tímaritið Glamour. Nú eyðir hún flestum kvöldum ein heima og segir að það geti tekið á. „Það er ekki margt um að vera fyrir ungt fólk í skemmtanabransanum í London ef það er allsgáð. Ég er oftast bara heima að horfa á sjónvarpið því það er ekkert gaman að fara út að djamma þegar allir aðrir eru á kókaíni að æpa á mann.“