Upp komast svik um síðir segir orðtakið og á það vel um hvíta rithöfundinn sem skrifaði minningarbók um að hafa alist upp hjá þeldökkri stjúpmóður og selt fíkniefni fyrir glæpaklíku í Los Angeles. Í ljós hefur komið að ekki er um raunverulegar minningar rithöfundarins að ræða heldur skáldskap.
Um er að ræða bókina Love and Consequences eftir Margaret B. Jones. Svikin komu í ljós þegar systir rithöfundarins hafði samband við bókaforlagið Penguin, sem gefur bókina út í Bandaríkjunum undir merkjum Riverhead.
Jones heitir réttu nafni Margaret Seltzer. Hún ólst ekki upp í fátækrahverfi Los Angeles heldur í einu af betri hverfunum í San Fernando dalnum.
Riverhead hefur innkallað allar bækurnar, um 19.000 talsins, og aflýst fyrirhuguðu ferðalagi til að kynna bókina, segir á vef BBC.
Í bókinni segir Jones frá uppvaxtarárum sínum í South Central Los Angeles. Hún segir m.a. frá því þegar einn af stjúpbræðrum hennar var skotinn í klíkubardaga og að hún hafi selt fíkniefni fyrir annan bróður sinn.
Rithöfundurinn hefur nú viðurkennt að hún hafi byggt bókina á reynslu vinar sem hún hafði kynnst í Los Angeles.