Leikhópurinn Vesturport er á leið til Mexíkó í apríl með leikritið Kommúnuna sem nú er sýnt á litla sviðinu í Borgarleikhúsinu. Samkvæmt upplýsingum frá Vesturporti hófst miðasala í Mexíkó í gær og seldust allir 12.000 miðar upp á klukkutíma. Gríðarleg aðsókn hefur verið á leikritið á Íslandi og verður sýningin færð á stóra sviðið í Borgarleikhúsinu þann 20.mars.
Með helstu hlutverk fara Atli Rafn Sigurðarson, Árni Pétur Guðjónsson, Elena Anaya, Gael García Bernal, Nína Dögg Filippusdóttir, Ólafur Darri Ólafsson, Rúnar Freyr Gíslason og Sara Dögg Ásgeirsdóttir.
Gísli Örn Garðarsson leikstýrir verkinu en sýningin er samstarf Leikfélags Reykjavíkur og Vesturports. Leikgerðin byggist á sænsku kvikmyndinni Tillsammans.