Eins og fram hefur komið vöktu tónleikar Bjarkar Guðmundsdóttur í Sjanghæ á sunnudaginn mikla athygli, en þar tileinkaði söngkonan Tíbetum lagið Declare Independence. Ákvörðun Bjarkar hefur valdið nokkrum titringi í Kína, og hafa fjölmiðlar víða um heim fjallað um málið. Morgunblaðið óskaði eftir viðbrögðum Bjarkar vegna málsins, og hefur í kjölfarið borist eftirfarandi yfirlýsing frá söngkonunni:
"Ég hef verið beðin um að senda frá mér yfirlýsingu í kjölfar þess að hafa tileinkað bæði Kósóvó og Tíbet lagið Declare Independence við sitt hvort tilefnið.
Ég legg mikla áherslu á að ég er ekki stjórnmálamaður, heldur fyrst og fremst tónlistarmaður, og sem slíkur tel ég að mér beri skylda til þess að tjá allar hugsanlegar mannlegar tilfinningar. Þörfin til þess að lýsa yfir sjálfstæði er aðeins ein þeirra, en þó mjög mikilvæg tilfinning sem allir finna fyrir á einhverjum tímapunkti í lífi sínu. Þetta lag var í raun samið með einstaklinginn í huga, en sú staðreynd að lagið hefur verið túlkað eins vítt og mögulegt er, yfirfært yfir á undirokaða þjóð, veitir mér mikla ánægju.
Ég óska öllum einstaklingum og þjóðum góðs gengis í baráttu þeirra fyrir sjálfstæði.
Réttlæti!
Með hlýhug, Björk."