Colin Firth segir að „Erkienglendingurinn“ sé goðsögn, og ekki til í raun og veru. Firth er einna þekktastur fyrir leik sinn í hlutverkum enskra séntilmanna á borð við Herra Darcy í Hroka og hleypidómum, en hann telur að þessa „staðalímynd“ sé hvergi að finna nema í sögum og kvikmyndum.
„Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að Erkienglendingurinn sem ég leik sé ekki til,“ sagði Firth, en nýjasta myndin hans er The Accidental Husband, þar sem hann leikur á móti Umu Thurman.
„Ég leik hann, en maður mætir honum ekki oft á götu. Þeir eru harla fáir sem eiga eitthvað skylt við herra Darcy. Ég held að hann sé bara þjóðsagnapersóna eða persóna í kvikmyndum.“
„Ef til vill var hann einhverntíma til, en núna er hann hvergi að finna nema í meðförum leikara.“
Firth sagði ennfremur að sér þætti spaugilegt hvað erlendir blaðamenn væru trúaðir á Englendingsímyndina þrátt fyrir þann ótölulega fjölda uppreisnargjarnra rokkara sem England hafi alið.