Kínversk stjórnvöld segjast ætla að herða eftirlit með erlendum listamönnum og skemmtikröftum sem koma fram í Kína. Segir menningarmálaráðuneyti Kína, að þetta sé gert í kjölfar þess að Björk Guðmundsdóttir vísaði til Tíbets í laginu Declare Independece (Lýsið yfir sjálfstæði) á tónleikum í Shanghai um síðustu helgi.
„Héðan í frá munum við herða eftirlit með erlendum listamönnum sem koma fram í Kína til að koma í veg fyrir að eitthvað þessu líkt gerist aftur," segir ráðuneytið í yfirlýsingu á vefsíðu sinni.
Á tónleikunum á sunnudag hrópaði Björk: Tíbet, Tíbet, og síðan: Raise your flag: (Dragið fána ykkar að húni) undir lok lagsins Declare Independence. Að sögn þýsku fréttastofunnar Deutsche Presse-Agentur fór þessi yfirlýsing fram hjá flestum tónleikagestum sem voru um 3000 talsins. Þá hefur ekki verið sagt frá málinu í kínverskum ríkisfjölmiðlum. En í yfirlýsingu menningarmálaráðuneytisins segir að Björk hafi brotið kínversk lög og sært tilfinningar Kínverja.
Í yfirlýsingunni segir, að Björk hafi vísvitandi breytt tónleikum sínum í pólitíska samkomu. „Við munum aldrei líða tilraunir til að skilja Tíbet frá Kína og tökum ekki framar við listamönnun sem hegða sér með þessum hætti," segir ráðuneytið og bætir við að ekkert ríki viðurkenni að Tíbet sé sjálfstætt land.
Björk hefur á fyrri tónleikum m.a. nefnt Grænlendinga, Færeyinga og Kosovobúa þegar hún hefur flutt umrætt lag. Björk segir á heimasíðu sinni, að hún vilji leggja áherslu á að hún sé ekki stjórnmálamaður heldur fyrst og fremst tónlistarmaður og sem slíkur telji hún það vera skyldu sína að túlka margvíslegar mannlegar tilfinningar.
„Þetta lag var frekar samið með persónulegt sjálfstæði í huga. En ég er afar ánægð með að það hafi fengið hina víðtækustu merkinu, baráttu kúgaðrar þjóðar."
Kínverjar hafa stýrt Tíbet frá árinu 1951 og líta á það sem hérað í Kína. Flestir íbúar í Tíbet styðja kröfur Dalai Lama, æðsta trúarleiðtoga Búddatrúarmanna í Tíbet, um að Tíbet fái aukna sjálfsstjórn en margir vilja einnig sjálfstæði.
Dalai Lama flúði frá Tíbet til Indlands árið 1959 eftir að uppreisn gegn Kínverjum mistókst.