„Listamenn auka verðmæti allra hverfa,“ segir David Walentas, fasteignaeigandi í Dumbo-hverfinu í Brooklyn í New York, um þá ákvörðun að leigja listamönnum aðstöðu og íbúðir á afar lágu verði, jafnvel láta þá fá húsnæði endurgjaldslaust. Fyrir tilstilli Walentas og sonar hans eru nú um 1.000 listamenn og stofnanir þeim tengdar með aðstöðu í Dumbo. Þeir segja listamenn auka verðgildi eignanna og draga kaupendur í hverfið. „Þetta er eins og góður arkitektúr,“ segir Walentas um listamennina. „Góður arkitektúr er ódýr en eykur verðgildið. Fólk borgar meira fyrir hann.“
Listamenn fagna velvilja Walentasfeðga en þekkt eru dæmi um það hvernig eignir í hverfum New York-borgar hækka gríðarlega í verði, er listamenn hafa sest þar að, meðal annars í SoHo og Chelsea.