Mikil stemmning var á brjóstauppboði í Saltfélaginu í gær. Allt að 300 manns mættu og keyptu hekluð brjóst fyrir um eina milljón króna, sem gefin var fiðrildaátaki UNIFEM, sem haldið er til styrktar konum í Líberíu, Súdan og Lýðveldinu Kongó.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá UNIFEM á Íslandi.
Brjóstin sem boðin voru upp voru búin til í aðdraganda sýningarinnar Gyðjan í vélinni sem Vatnadansmeyjafélagið Hrafnhildur setti upp síðasta sumar. 25 handverkskonur á aldrinum 18-88 ára hekluðu um 250 brjóst en þau voru af öllum gerðum: Lítil, stór, skökk, sigin og stinn í alls konar litum.
„Kunnum við hjá UNIFEM öllum sem að uppboðinu komu bestu þakkir; handverkskonunum sem bjuggu til brjóstin af alúð, Vatnadansmeyjunum sem mættu í fullum skrúða og buðu brjóstin röggsamlega upp af mikilli gleði, listamönnum sem fram komu og þeyttu lúðra og Saltfélaginu sem lánaði húsnæði undir herlegheitin.“