Breska sjónvarpsþáttaröðin Allo Allo þar sem grín var gert að hernámi Nasista í Frakklandi í seinni heimstyrjöldinni verður nú sýnd í þýsku sjónvarpi í fyrsta sinn. Alls voru framleiddir 83 þættir í átta syrpur fyrir BBC Comedy á árunum 1982 til 1992 og hefur þýska sjónvarpsstöðin ProSeibenSat1 keypt sýningarréttinn.
Á vefsíðu BBC segir talsmaður BBC að þættirnir hafi ekki verið sýndir í þýsku sjónvarpi til þessa sökum þess að viðfangsefni þáttanna hafi þótt of viðkvæmt.
Í þáttunum er gert grín að Gestapo, frönsku andspyrnuhreyfingunni og Bretum. Þættirnir verða talsettir á þýsku en ekki er ljóst hvort hermt verður eftir hinum ýkta þýska hreim sem þýsku sögupersónur þáttanna notast við í hinni upprunalegu ensku útgáfu.
Á fréttavef BBC kemur fram að þættirnir hafi notið mikilla vinsælda og hafa verið sýndir í meira en 50 löndum, þar á meðal Íslandi þar sem þeir nefndust Allt í hers höndum.