Það kemst engin plata með tærnar þar sem Laugardagslögin 2008 hafa hælana þessa vikuna en fimm sinnum fleiri eintök seldust af Evróvisjónplötunni en næstu plötu á eftir. Þetta ætti kannski ekki að koma neinum á óvart enda áhugi Íslendinga á Evróvisjónkeppninni gríðarlegur. Á Laugardagslögunum 2008 má finna öll lögin sem tóku þátt í undankeppninni, þar á meðal vinsælasta lagið á Íslandi um þessar mundir, sigurlagið „Fullkomið líf/This Is My Life“, en einnig hið gríðarlega vinsæla lag Barða Jóhannssonar „Ho, ho, ho we say hey, hey, hey“.
Kassi sem inniheldur fimm plötur Hins íslenska Þursaflokks heldur áfram að seljast vel en kassinn situr í fimmta sæti Tónlistans. Fregnir bárust nýverið af því að kassinn hafi selst upp hjá útgefanda og að fá eintök séu eftir í verslunum en von mun vera á fleiri kössum til landsins.
Ástralski tónlistarmaðurinn og Íslandsvinurinn Nick Cave stekkur beint í áttunda sætið með sína nýjustu plötu, Dig, Lazarus, Dig!!!, en platan hefur fengið mjög góða dóma í erlendum miðlum.
Loks vekur athygli að heildarútgáfa á verkum Bergþóru Árnadóttur kemur ný inn í 12. sæti Tónlistans.