Leikfélag Akureyrar frumsýnir í kvöld nýtt íslenskt leikrit, sem heitir því framandi nafni Dubbeldusch og er það frumraun leikarans Björns Hlyns Haraldssonar sem leikskálds.
Dubbeldusch var nafn á vinsælu íþróttasjampói sem selt var á árum áður og hefur einhverja tilvísun í söguna, en verkið hefur að öðru leyti lítið með hárþvott að gera. Leikritið fjallar um mann sem neyðist til að horfa um öxl þremur áratugum eftir að hann stóð frammi fyrir erfiðu vali og enn efast hann um að hafa á sínum tíma valið rétt. Að auki kemur gamalt leyndarmál upp á yfirborðið.
Dubbeldusch er sett upp í samvinnu við leikhópinn Vesturport, en með aðalhlutverkið fer Hilmar Jónsson, sem síðustu ár hefur verið oftar í hlutverki leikstjórans en leikarans. Björn Hlynur segist hafa þurft að ganga talsvert á eftir Hilmari um að hann tæki hlutverkið að sér.