Opnunarhátíð Blúshátíðar í Reykjavík var formlega haldin á Hilton Reykjavík Nordica í dag en hátíðin er nú haldin í fimmta sinn, og stendur yfir frá 18.- 21. mars.
Margir góðir gestir munu koma fram á hátíðinni en þar má m.a nefna The Yardbirds, hljómsveitina sem ól af sér gítarsnillingana og blúsrokkarana Eric Clapton, Jeff Beck og Jimmy Page. Magic Slim, kemur beina leið frá Chicago með hljómsveit sína The Teardrops. Blúsdívan Deitra Farr kemur einnig fram, Jolly Jumper & Big Moe, The Nordic All Stars Blues Band, Vinir Dóra, Bláir skuggar og fleiri.
Blúsfélag Reykjavíkur heiðraði einn af meðlimum félagsins en Ásgeir Óskarsson, trommuleikari í Stuðmönnum og Þursaflokknum, var gerður að heiðursfélaga Blúsfélags Reykjavíkur.
Í tilefni af fimm ára afmæli Blúsfélagsins koma fram allir heiðursfélagar Blúsfélags Reykjavíkur frá upphafi, þau Magnús Eiríksson, Björgvin Gíslason, Andrea Gylfadóttir og KK.