Þótt teiknimyndin um fílinn Horton hafi verið mest sótta myndin í íslenskum kvikmyndahúsum um helgina situr ævintýramyndin 10.000 BC í efsta sæti Bíólistans að þessu sinni. Ástæðan er sú að á listanum er farið eftir því hvaða myndir voru tekjuhæstar hverju sinni, og þar sem miðaverð á Horton var lægra en á 10.000 BC situr sú síðarnefnda í efsta sætinu. Alls sáu 4.896 manns 10.000 BC um helgina, en 4.934 sáu Horton. Tekjurnar af 10.000 BC námu hins vegar um fjórum milljónum króna en tekjurnar af Horton námu rúmum þremur.
Teiknimyndin um Horton var gerð af sömu aðilum og myndirnar vinsælu um ísöldina, Ice Age. Myndin fékk fína dóma í Morgunblaðinu í gær, fjórar stjörnur af fimm mögulegum.
Loks vekur athygli að íslenska kvikmyndin Heiðin er ekki á meðal tíu efstu myndanna á Bíólistanum, á meðan Brúðgumi Baltasars Kormáks er enn í fjórða sætinu eftir heilar níu vikur á lista. Heiðin, sem frumsýnd var um helgina, situr hins vegar í fjórtánda sætinu, en hún er eingöngu sýnd í Háskólabíói sem skýrir hugsanlega fremur dræma aðsókn.