Heather Mills hellti vatni yfir Fionu Shackleton, lögmann Pauls McCartneys, í dómssal í London í gær, þegar birtur var úrskurður dómara í skilnaðardeilu þeirra. Sagði Mills við fréttamenn að hún hefði „skírt“ Shacleton í réttarsalnum.
Fregnir herma að Mills hafi hellt úr vatnsglasi yfir höfuðið á Shackleton, sem mætt hafði í réttinn með uppgreitt hár, en fór þaðan vatnsgreidd.
„Heather hellti vatni á höfuðið á henni, rólega og yfirvegað ... Fiona var rennandi blaut. Allir voru steini lostnir - svona framkoma er algjörlega óviðeigandi,“ var haft eftir heimildamanni.
Mills hellti ennfremur úr skálum reiði sinnar yfir Shackleton í réttarsalnum og sakaði hana um óheiðarleika.
Shackleton hefur getið sér gott orð fyrir árangur í réttarsalnum, og hlotið viðurnefnið „Steel Magnolia.“ Hún var lögmaður Karls prins er hann skildi við Díönu.