Hjónaband leikkonunnar Pamelu Anderson og Ricks Salomons verður ógilt. Anderson fór fram á ógildingu á dögunum þar sem hún telur að hjónabandið sé byggt á blekkingum. Salomon hefur orðið við þeirri beiðni. Salomon þessi er sjálfsagt kunnastur fyrir að hafa búið til kynlífsmyndband með samkvæmisljóninu Paris Hilton.
Anderson og Salomon giftu sig í október í fyrra og voru skilin að borði og sæng rúmum tveimur mánuðum síðar og sótti Anderson um skilnað nokkru síðar í desembermánuði. Solomon er þriðji eiginmaður Anderson en fyrri tveir eru Kid Rock og Tommy Lee, báðir tónlistarmenn og miklir glaumgosar.