Hvað skyldu Sarah Jessica Parker, Britney Spears, Madonna, Sandra Oh og Amy Winehouse eiga sameiginlegt? Jú, þær eru þær fimm konur í heiminum sem minnstan kynþokka hafa, skv. könnun breska karlablaðsins Maxim. Parker er þar í fyrsta sæti, þ.e. með minnstan kynþokka allra kvenna í heimi, hvorki meira né minna.
Parker er að vonum ekki sátt við þessa könnun blaðsins sem seint getur talist hávísindaleg og segist sár yfir uppátækinu. Hún spyr á móti, í viðtali við glaðamann Grazia kvennablaðsins, hvort þetta geti staðist, hvort hún sé virkilega svo laus við kynþokka. Slíkar kannanir séu vissulega vægðarlausar og eiginmaður hennar sé ekki sáttur enda sé verið að setja út á hans smekk og fegurðarskyn.
Parker er ekki af baki dottin þó svo að Maxim hafi sagt hana líkjast veðhlaupahrossi. Hún segir það ekkert keppikefli að standast væntingar karlablaða um fegurð. Hún sé bara eins og hún eigi að vera, laus við botox og sílíkon.