Framkvæmdastjórn Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva hefur farið fram á það að texta írska lagsins, sem tekur þátt í keppninni í Serbíu í maí, verði breytt. Fulltrúi Íra verður Kalkúninn Dustin, vinsæl leikbrúða í írsku sjónvarpi, og lagið nefnist Irelande douze pointe.
Í textanum eru nefnd nokkur Evrópulönd, þar á meðal Makedónía. Af flóknum ástæðum viðurkenna Grikkir ekki það nafn á landinu heldur aðeins nafnið Fyrrum Júgóslavíulýðveldið Makedónía en undir því nafni gengu Makedóníumenn í Sameinuðu þjóðirnar. Þegar atkvæði eru talin í Eurovision er Makedónía skráð þar undir nafninu FYR Macedonia (Former Yugoslav Republic of Macedonia.
Nú hafa Írar verið beðnir um að nota nafnið FYR Macedonia í texta lagsins en ekki aðeins Macedonia. Eru aðstandendur Dustins sagðir hafa fallist á það.