Söngvarinn George Michael mun halda röð tónleika í Bandaríkjunum og Kanada í fyrsta sinn í 17 ár.
Þrátt fyrir að Michael sé mjög vinsæll á alþjóðavísu hefur hann ekki átt miklu gengi að fagna í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir að mæta til spjallþáttadrottningarinnar Opruh Winfrey árið 2004 og fá hana til að mæla með afurð sinni náði plata hans „Patience“ eingöngu 12 sæti á vinsældarlistunum og er það skársti árangur hans í mörg ár, að því er fram kemur á fréttavef Reuters.
Michael náði miklum vinsældum þegar Wham! dúettinn var og hét en hann sló algjörlega í gegn með fyrstu sóló plötu sinni „Faith“ sem seldist í rúmum 10 milljónum eintaka í Bandaríkjunum. Næstu plötur þar á eftir seldust ekki vel og ferill hans svo gott sem staðnaði þegar hann fór í mál við plötufyrirtækið Sony og vildi losna frá samningi sínum. Svo var það „klósettatvikið“ fræga árið 1998 og hjálpaði það ekki mikið upp á plötusölur.
Michael hefur þegar spilað fyrir 1.3 milljónir aðdáenda í 12 löndum í Evrópu og nú er komið að Bandaríkjunum. Áhugasamir geta leitað að miðum frá og með 6. apríl en tónleikar verða frá 17 júní og til 3. ágúst.