Forsíðumynd aprílheftis tímaritsins Vogue sætir nú töluverðri gagnrýni í Bandaríkjunum. Myndin er af körfubolakappanum LeBron James og fyrirsætunni Gisele Bundchen og er hún fyrsta forsíðumynd tímaritsins sem sýnir þeldökkan karlmann.
Myndin hefur hins vegar verið gagnrýnd á þeirri forsendu að hún ýti undir staðalímyndir bæði af þeldökkum karlmönnum og ljóshærðum konum en á myndinni stendur James vígalegur á velli og berar tennurnar. Hafa gagnrýnendur myndarinnar sagt hann minna mest á King Kong þar sem hann dripplar bolta með annarri hendi en heldur hinni um mitti hinnar hlæjandi Bundchen.
Patrick O’Connell, talsmaður Vogue, segir hugmyndina að baki myndatökunni hins vegar hafa verið þá að fanga stjörnurnar í hita leiksins en þema blaðsins er „stærð og lögun”.
„Okkur finnst Lebron James og Gisele Bundchen taka sig mjög vel út saman og það er okkur heiður að hafa þau á forsíðunni,” segir hann.
James gefur einnig lítið fyrir gagnrýnina: Allt sem tengist nafninu mínu verður gagnrýnt á einn eða annan hátt,” segir James. „Hverjum er ekki sama um það hvað fólk segir?”
Samir Husni, sérfræðingur í ímyndargreiningu, telur hins vegar að myndin hafi meðvitað verið valin á forsíðuna til að ögra fólki enda velji forsvarsmenn tímaritsins ekki myndir á forsíðu þess af handahófi. „Þegar birt er mynd sem minnir á King Kong og vísar til þeirrar staðalímyndar að svartir karlar girnist hvítar konur þá er það ekki gert í sakleysislegu hugsunarleysi,” segir hann.