Stærsta tónleikaferðalag ársins hefst þann 1. apríl þegar þrjár af vinsælustu rokkhljómsveitum Íslands munu halda tónleika víðsvegar um landið á vegum Rásar 2 og tímaritsins Monitor.
Helsti tilgangur ferðarinnar er að gefa tónlistaráhugafólki á landsbyggðinni tækifæri til að sjá og heyra fremsta tónlistarfólk landsins af yngri kynslóðinni í heimabyggð og fyrir lítið fé en Dr. Spock, Benny Crespos Gang og Sign ætla að rokka á Selfossi, Vestmannaeyjum, Höfn í Hornafirði, Eskifirði, Akureyri, Reykjanesbæ og í Reykjavík.
Þetta er þriðja árið í röð sem Rás 2 stendur fyrir tónleikaferð um landið en í ár sameinast kraftar Rásar 2 og Monitor og úr verður stærsta tónleikaferðin til þessa.