Þrýstingur á utanríkisráðherra Finnlands, Ilkka Kanerva, um að hann segi af sér embætti hefur aukist undanfarna daga en hann var uppvís að því að senda vafasöm smáskilaboð til nektardansmeyjar. Neitaði Kanerva fyrst að hafa sent skilaboðin til stúlkunnar en hefur nú beðist afsökunar á framferði sínu.
Að sögn stúlkunnar Johönnu Tukiainen, snérust skilaboðin um í hverju hún væri innanundir kvöldkjól. Kanerva sagði í viðtali fyrr í mánuðinum að Tukiainen hafi haft samband að fyrra bragði, boðist til að koma fram með erótískum danshópi sínum í afmæli ráðherrans og hann hafi svarað henni með textaskilaboðum. Þá segir hann spurningar um klæðnað hennar hafa verið tilraun til að vera fyndinn.
Þykir málið hið versta fyrir ráðherrann þrátt fyrir að ekkert ólöglegt sé við smáskilaboðin og að sambýliskona hans hafi samþykkt afsökunarbeiðnina. Mjög óvenjulegt er í Finnlandi að mál sem þessi rati í fjölmiðla enda er hefð fyrir því í Finnlandi að halda einkalífi og stjórnmálum aðskildum í opinberri umræðu. Hann hefur hins vegar áður verið bendlaður við svipað mál er hann var forseti þingsins árið 2005. Flokkur Kanerva stendur við bakið á ráðherranum og forsætisráðherrann, Matti Vanhanen, segir að ekki eigi að blanda saman einkalífi stjórnmálamanna og starfi þeirra. Forsætisráðherrann hefur sjálfur orðið fyrir barðinu á slíkri umræðu er hann höfðaði mál gegn fyrrverandi unnustu eftir að hún birti ítarlegar upplýsingar um samband þeirra í bók. Vanhanen tapaði því máli.
Nú hefur slúðurblaðið Hymy, sem fyrst birti frétt um skilaboðin fyrr í mánuðinum, boðað að í blaðinu í næstu viku verði birt einhver þeirra skilaboða sem fjármálaráðherrann á að hafa sent.
Tukiainen sér hins vegar eftir öllu saman og skilaði aftur fénu sem hún fékk frá Hymy tímaritinu fyrir söguna. Hún reyndi jafnfram að koma í veg fyrir að skilaboðin yrðu birt opinberlega í blaðinu en tapaði því máli fyrir héraðsdómi í Helsinki í gær.