Alþjóðlega kvikmynda- og myndbandsverkahátíðin 700IS Hreindýraland hófst formlega í Sláturhúsinu á Egilsstöðum í kvöld. Hátíðin, sem standa mun í rúma viku, fer fram víða um Fljótsdalshérað og á fleiri stöðum á Austurlandi og verða sýnd um eitt hundrað verk frá öllum heimshornum, auk námskeiðahalds og annarra listviðburða sem fram fara á hátíðinni.
Ólöf Nordal alþingismaður opnaði 700IS í kvöld með ávarpi. Þá tilkynnti Kristín Scheving, framkvæmdastjóri og upphafsmaður hátíðarinnar, hverjir hlytu verðlaun fyrir besta framlagið til hátíðarinnar, en það eru þeir Max Hatter fyrir besta verk 700IS og Þórður Grímsson fyrr besta íslenska verk hátíðarinnar. Veitti Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, Hatter verðlaun frá fyrirtæki sínu og Glitnir gaf verðlaun Þórðar.
Þá var fluttur tónlistar- og myndbandsgjörningurinn Hanaegg, eftir Ólöfu Nordal listakonu, í samstarfi við Ásgerði Júníusdóttur óperusöngkonu og Þuríði Jónsdóttur tónskáld. Rétt í þessu er sýningargestum 700IS boðið að flytja sig um set og þiggja veitingar á Gistihúsinu á Egilsstöðum.