„Það er ástæða fyrir því að þessir karlar eru fluttir til landsins. Menn eru búnir að sjá hvað virkar,“ segir Ísleifur B. Þórhallsson hjá viðburðafyrirtækinu Concert sem sér um tónleika Bobs Dylans í Egilshöll í vor.
Íslendingar hafa undanfarnar vikur eytt tæpum 200 milljónum í miða á tónleika reynsluboltanna Bobs Dylans, Erics Claptons, Johns Fogertys og síðast en ekki síst Whitesnake. Þessir karlar þekkja bransann út og inn, eins og Barbí þekkir Ken, enda með samanlagða reynslu upp á rúm 200 ár.
Ísleifur segir alla aldurshópa geta notið þess að hlusta á karla eins og Dylan, allt frá unglingum upp í háöldruð gamalmenni. „Það eru ekki margir sem ná því. Hjá flestum öðrum er það afmarkaðra, viss aldur, ungir, gamlir, konur eða karlar,“ segir hann.