Kvikmyndaleikstjórinn umdeildi, Oliver Stone, vinnur að kvikmynd um George W. Bush Bandaríkjaforseta og vonar að hún verði tilbúinn áður en Bush lætur af embætti í janúar á næsta ári. Þetta er þriðja kvikmynd Stones um forseta Bandaríkjanna, áður hefur hann gert myndir um Richard Nixon og John F. Kennedy – Nixon og JFK. Þetta kemjur fram á vef bresku Sky fréttastöðvarinnar.
Stone hefur gagnrýnt Íraksstríðið mjög en þrátt fyrir það segir leikstjórinn, sem sjálfur var hermaður í Víetnam á sínum tíma, að myndin – sem heita mun W – verði ekki ádeilumynd á Bush heldur sanngjörn umfjöllun um manninn.
Heimildir Sky herma að upptökur hefjist síðari hluta aprílmánaðar í Shreveport í Louisiana. Sögusagnir eru á kreiki um að það verði Josh Brolin sem fari með hlutverk forsetans, en Brolin lék nýverið annan Texasbúa í No Country For Old Man. Þá er talið að Elisabet Banks, sem lék í The 40 Year-Old Virgin, leiki Lauru Bush, forsetafrú.