Alþjóðlega kvikmynda- og myndbandsverkahátíðin 700IS Hreindýraland hófst formlega í menningarmiðstöðinni Sláturhúsinu á Egilsstöðum á laugardagskvöld. Hátíðin, sem standa mun í rúma viku, fer fram víða um Fljótsdalshérað og á fleiri stöðum á Austurlandi og verða sýndar um eitt hundrað listrænar stuttmyndir frá öllum heimshornum en einnig mun námskeiðahald og aðrir listviðburðir fara fram á hátíðinni.
Kristín Scheving, framkvæmdastjóri og upphafsmaður hátíðarinnar, upplýsti á opnuninni hverjir hlytu verðlaun fyrir besta framlagið til hátíðarinnar. Max Hattler fékk verðlaun fyrir besta verk 700IS en hann er vídeólistamaður og hefur unnið til margra verðlauna fyrir verk sín. Þórður Grímsson var útnefndur fyrir besta íslenska verk hátíðarinnar. Hann stundar nám við Listaháskóla Íslands og hefur frá árinu 2006 sýnt verk sín opinberlega einn og með fleirum.
Á laugardagskvöldið var verkið Hanaegg eftir Ólöfu Nordal listakonu sýnt í samstarfi við Ásgerði Júníusdóttur óperusöngkonu og Þuríði Jónsdóttur tónskáld.