Ofurfyrirsætan Naomi Campbell var handtekin á Heathrow flugvelli í dag, og er gefið að sök að hafa skyrpt á lögregluþjón. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fregnir berast af því, að Campbell veitist að fólki.
Talsmaður lögreglunnar í London vildi einungis segja, að kona hefði verið handtekin á vellinum grunuð um árás á lögregluþjón. Ekki liggur fyrir hvort atvikið átti sér stað í flugstöðinni, eða um borð í flugvél.
Í fyrra játaði Campbell, sem er 37 ára, að hafa hent farsíma sínum í þjónustustúlku er þær deildu um gallabuxur sem fyrirsætan saknaði. Var Campbell þá dæmd til að gegna samfélagsþjónustu og sækja reiðistjórnunarnámskeið.