Á næstu dögum verður frumsýnt í sjónvarpi nýtt myndband við lagið „Return to me“ með Elízu Geirsdóttur Newman. Lagið kom út á smáskífu fyrir stuttu í Bretlandi og er einnig að finna á fyrstu breiðskífu Elízu, Empire Fall, sem kom út á síðari hluta seinasta árs.
Höfundar myndbandsins, teiknarar og leikstjórar eru Marta María Jónsdóttir og Kristín Elva Rögnvaldsdóttir, en þær hafa áður fengist við teiknimyndbandagerð og hlotið mikið lof fyrir. Meðal annars hafa þær gert myndband fyrir stúlknahljómsveitina Brúðarbandið, en það var tilnefnt til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2005.
Óþolinmóðir geta glaðst yfir því að nýja myndbandið hennar Elizu má nú þegar nálgast á vefveitunni youtube.com, með því að slá inn nafn lagsins og flytjandans.