Demantskreyttur strengur að verðmæti sem svarar rúmlega níu milljónum króna var hápunkturinn á nærfatatískusýningu í Singapore í dag. Á strengnum eru 518 demantar, alls 30 karöt, í blómamynstri.
Ennfremur er hann skreyttur 27 skúfum úr hvítagulli.
Rúmenska fyrirsætan Danielle Luminita var borin fram á sviðið af tveim vörpulegum mönnum og var hún í strengnum einum fata.
Að sýningunni lokinni tjáði Luminita tíðindamanni Reuters að strengurinn væri „mjög þægilegur“ og ekki þungur.
Það var nærfataframleiðandinn Triumph International sem lét gera strenginn, og sagði talskona fyrirtækisins að strengurinn yrði sendur í hreinsun áður en hann yrði hafður til sýnis.
Hann væri ekki til sölu.